Þann 4. nóvember, 1995 opnuðum við fyrstu þrjár sjálfsafgreiðslustöðvarnar á Íslandi. Þær eru staðsettar á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi, Smiðjuvegi í Kópavogi og Furuvöllum á Akureyri og eru enn vinsælar staðsetningar hjá viðskiptavinum. Hægt var að versla bensín og dísel allan sólahringinn án aðstoðar.
Frá opnun hefur áherslan ávallt verið á lægra verð og að bjóða viðskiptavinum bestu þjónustuupplifun. Hægt var að greiða með bæði greiðslukortum og peningaseðlum sem þótti stórt skref á þessum tíma, að geta greitt með greiðslukortum úti á dælu allan sólahringinn.
Um tíma var þróun búnaðar minniháttar en síðustu ár hafa ýmsar frábærar lausnir litið dagsins ljós en áhersla okkar er að vera leiðandi í uppbyggingu stöðva sem geta nýtt tæknina til fulls. Í dag eru stöðvarnar 73 og árið 2021 var greiðslubúnaður uppfærður á öllum stöðvum til að mæta þörfum nútímatækni. Það varð til þess að Orkan var fyrst til að geta boðið upp á snertilausar greiðslur með apple og google pay leiðum. Tveimur árum seinna var þróuð leið til að bjóða Orkulykilinn beint í símann og vorum við fyrsta eldsneytisfyrirtækið á markaði til þess að bjóða upp á þessa lausn.
Takk kæru Orkuboltar fyrir að velja bleika litinn þegar fylla þarf á tankinn og fyrir að vera samferða okkur í 30 ár.